17 Febrúar 2022 15:34
Í tengslum við fréttaflutning vegna aðgerðar sérsveitar vegna skotárásar sem átti sér stað þann 10.febrúar síðastliðinn.
Sem hluta af rannsókn lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu á skotárásinni þann 10. febrúar var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð út til aðstoðar við leit að skotmanni. Leitin fór meðal annars fram á heimili í Kórahverfinu í Kópavogi, þar sem meintur skotmaður var skráður til heimilis samkvæmt kerfum lögreglu.
Lögreglan hafði símasamband við húsráðanda í þessari íbúð og honum var tjáð að lögreglan væri að leita að meintum skotmanni sem væri skráður þarna til heimilis. Sérveitarmenn voru meðvitaðir um að börn væru inni í íbúðinni og fóru því með séstakri aðgát. Húsráðandi hitti fjóra sérsveitarmenn á stigagangi hússins og tjáði þeim að grunaður skotmaður væri ekki inni í íbúðinni og hleypti þeim inn í íbúðina til þess að staðfesta það. Þrír sérsveitarmenn fóru inn í íbúðina til þess að staðfesta að karlmaður, sem var þar inni, væri ekki meintur skotmaður. Að því loknu yfirgaf sérsveit vettvang og voru lögreglumenn frá LRH þar áfram.
Þeir sérsveitarmenn sem fóru inn í íbúðina beindu aldrei vopni að neinum sem var þar inni. Það er hins vegar vel skiljanlegt að sá sem vaknar upp af svefni og sér sérsveitarmenn í fullum aðgerðargalla inni hjá sé brugðið. Fulltrúar embættis ríkislögreglustjóra leggja sig fram við að koma fram af virðingu við samborgara sína í öllum verkefnum lögreglunnar og það á sannarlega líka við í aðgerðum sem þessum sem krefjast aukins viðbúnaðar.
Eins og hefur verið fjallað um í fjölmiðlum var skotmaðurinn svo handsamaður síðar sama dag.