8 Febrúar 2022 17:25
Stefnt var að því að fyrsti hluti búnaðar þess sem setja þarf upp við Ölfusvatnsvík kæmi á vettvang í kvöld. Færð á vettvang hefur ekki verið góð en von er að úr því fari að rætast og úrkoma minnki. Öllum flutningum hefur verið frestað til morguns en þá verður aðstöðuplan og slóði að því ruddur. Í lok dags á morgun þarf allur búnaður að vera kominn á staðinn og uppsetningu þarf að ljúka fyrir fimmtudag. Ísröst er byrjuð að myndast með bökkum vatnsins og þarf að finna hentugan stað til „sjósetningar“ á prömmum sem notaðir verða úti á vatninu.
Veðurspá gerir ráð fyrir norðan blæstri í fyrramálið en hægari með kvöldinu og hæglætisveðri á fimmtudag og fram á föstudag en hörku frosti.
Á búnaðarlista fyrir utan sérstakan útbúnað til köfunar er m.a. eftirfarandi:
- Aðstaða fyrir stjórnun og fjarskipti
- Aðstaða fyrir kafara fyrir búnað og utanumhald
- Aðstöðugámur fyrir fataskipti kafara
- Færanleg ljósavél í fullri stærð
- 2 stk prammar til vinnu á vatninu
- Matur
- Vinnubúðir með starfsmannaaðstöðu / aðstöðu til að matast
- Snyrtingar
- Snjóruðningstæki
Auk daglegs stöðufundar með þeim sem að aðgerðinni koma var fundað með sérfræðingum í umhverfismálum og Brunavörnum Árnessýslu vegna hættu á mengun við aðgerðirnar. Þá var farið yfir sameiginlega rannsóknaráætlun lögreglu og RNSA á flakinu og nauðsynlegar aðgerðir tímasettar í ferlinu með stjórnendum kafara. Sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps annarsvegar og þjóðgarðsverði hins vegar hefur verið gert viðvart um fyrirhugaðar aðgerðir og umfang þeirra.
Mögulegt er að umfang aðgerðanna leiði til tjóns á lággróðri og annarra ummerkja á bakka vatnisns einkum þar sem þungir prammar verða settir út. Lagfæringar á því þurfa að bíða vors en reynt verður af fremsta megni að komast hjá því að eftir verði nokkur ummerki um aðgerðirnar.
Lögregluvakt verður á vettvangi frá því uppsetning hefst og þar til aðgerðum er lokið.