25 Júní 2024 15:51

Dagana 3. – 9. júní sl. tóku íslensk lögregluyfirvöld þátt í alþjóðlegum aðgerðadögum Europol, Frontex og Interpol gegn mansali. Aðgerðirnar náðu til 39 landa, en hér heima komu að þeim um 20 lögreglumenn að jafnaði alla dagana. Farið var í eftirlit um 90 sinnum á staði þar sem vændi, betl og önnur brotastarfsemi er talin þrífast. Í heildina voru þetta nálægt 40 staðir. Þá voru höfð afskipti af 221 einstaklingi þessa viku á landamærum og á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim var 32 meintum þolendum boðin aðstoð, en aðeins 1 þáði hana og var Bjarkarhlíð virkjuð af þeim sökum. Meintir þolendur eru frá 16 löndum og var meirihluti þeirra í vændisstarfsemi. Einn var handtekinn eftir leit á nuddstofu í Reykjavík vegna gruns um mansal. Umrædda daga voru enn fremur greind 614 flug m.t.t. hugsanlegra fórnarlamba mansals og brotamanna.

Eftir aðgerðadagana hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafið rannsókn á þremur nýjum málum þessu tengdu. Markmið verkefnisins var margþætt, m.a. að fá yfirsýn yfir stöðu mansals á Íslandi, bera kennsl á fórnarlömb mansals og veita þeim viðeigandi  aðstoð og auka eftirlit á landamærum m.t.t. fórnarlamba mansals og brotamanna.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum og embætti ríkislögreglustjóra tóku þátt í aðgerðadögunum og fengu aðstoð frá Skattinum.

FRÉTTATILKYNNING EUROPOL