8 Júlí 2014 12:00
Það er árviss viðburður að lögreglu berist tilkynningar um garðslátt á ókristilegum tíma. Þetta sumar er engin undantekning í þeim efnum en snemma í morgun, og utan hins hefðbundna fótaferðartíma, hringdi íbúi á höfuðborgarsvæðinu í lögreglu og kvartaði sáran undan hávaða frá sláttuvél. Af því tilefni er rétt að rifja upp þá ágætu og almennu reglu hvað varðar garðslátt í íbúðabyggð, en hún er sú að óviðeigandi er slá blettinn mjög snemma á morgnana eða seint á kvöldin. Garðsláttur að næturlagi er sömuleiðis afleit hugmynd og endar gjarnan líka með afskiptum lögreglu.
Í ljósi ofangreinds er tilvalið að vekja sérstaka athygli á 4. gr. lögreglusamþykktar. Í henni segir m.a. að bannað er að hafast nokkuð að, sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður fólk að hafa það ávallt hugfast.