14 Mars 2014 12:00
Reglulega berast lögreglu tilkynningar þar sem kvartað er undan hávaða, en oftast koma tilkynningar af þessu tagi á borð lögreglu seint á kvöldin eða á næturna. Síðasta nótt var engin undantekning í þeim efnum og átti þar m.a. í hlut ölvað fólk sem raskaði næturró annarra með hátt stilltri tónlist. Það kemur þó líka oft fyrir að allsgáðir einstaklingar rjúfa næturkyrrðina með ýmsu móti. T.d. þeir sem standa í framkvæmdum á nóttunni og eru að negla og bora. Að flísaleggja í fjölbýli að næturlagi er sömuleiðis mjög vond hugmynd, en ekki er langt síðan að lögreglan þurfti að stöðva flísalagnir um miðja nótt í íbúð fjölbýlishúss í austurborginni. Þetta er rifjað upp hér því nú er helgin fram undan og þá er mikilvægt að geta hvílst vel og safnað kröftum fyrir nýja vinnuviku.