19 Nóvember 2014 12:00
Það er farið að síga á seinni hlutann í árlegri fundaherferð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu. Í gær var röðin komin að vesturbæ Reykjavíkur, en venju samkvæmt var farið yfir stöðu mála og þróun brota í hverfinu undanfarin ár. Rýnt var í tölfræðina, en margt jákvætt mátti lesa út úr henni. Þar má t.d. nefna að innbrotum og þjófnuðum fækkaði fyrstu tíu mánuði ársins í samanburði við sama tímabil áranna 2012 og 2013. Fjöldi innbrota á heimili í vesturbæ Reykjavíkur var svipaður árin 2011-2013, en þau eru nú færri það sem af er þessu ári.
Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður úr könnun, Þolendakönnun – viðhorf til lögreglu, sem framkvæmd var í sumarbyrjun. Þar kemur fram að vesturbæingar eru ánægðir með störf lögreglunnar, en 95% þeirra segja hana skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum. Athygli vekur hversu duglegir vesturbæingar eru þegar samfélagsmiðlar eru annars vegar, en þegar spurt var hvernig fólk leitaði eftir aðstoð, upplýsingum eða fræðslu hjá lögreglu, sögðust tæplega 66% íbúa nýta sér samfélagsmiðla lögreglunnar í þeim tilgangi. Tölfræðina frá fundinum í gær má annars nálgast með því að smella hér.