19 Nóvember 2014 12:00
Það voru fastir liðir eins og venjulega þegar fulltrúar lögreglunnar hittu lykilfólk á Seltjarnarnesi að máli á árlegum svæðafundi, sem haldinn var í dag. Hljóðið í Seltirningum var gott, enda ekki að sjá að það sé yfir miklu að kvarta í sveitarfélaginu. Að minnsta kosti eru tölur um afbrot betri þar en víðast hvar annars staðar og undir meðaltali þegar höfuðborgarsvæðið er skoðað. Ef einhverja óánægju er finna varðandi lögregluna er það kannski helst vegna þess að enga lögreglustöð er að finna í byggðarlaginu.
Nær allir Seltirningar, eða 97%, eru ánægðir með störf lögreglunnar og segja hana skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum. Brot þar eru færri en á flestum öðrum svæðum í umdæminu, eins og áður sagði, og þjófnuðum og innbrotum hefur fækkað á Seltjarnarnesi frá árinu 2012. Fjöldi innbrota og þjófnaða er ámóta nú og var árið 2011, en bornir eru saman fyrstu tíu mánuðir hvers árs. Þegar kemur að samskiptum Seltirninga við lögreglu, þ.e. þeir leita eftir aðstoð, upplýsingum eða fræðslu hjá embættinu, þá nýta 74% þeirra sér samfélagsmiðla lögreglunnar og er það óvenju hátt hlutfall. Um þetta og fleira athyglisvert má lesa með því að smella hér og kynna sér tölfræðina frá fundinum.