2 Október 2014 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók ljós- eða gráleitri bifreið, líklega Toyota, af bifreiðastæði á milli húsanna á Hverfisgötu 105 og Skúlagötu 46 í Reykjavík og út á Snorrabraut fimmtudaginn 3. júlí kl. 9.50. Þar lentu bíllinn og karl á reiðhjóli í árekstri. Hlutaðeigendur ræddu saman á vettvangi, en lögreglan var ekki kölluð til. Henni var tilkynnt um málið mörgum vikum síðar, en reiðhjólamaðurinn leitaði á slysadeild nokkrum dögum eftir slysið og kom þá í ljós að viðkomandi var handleggsbrotinn.
Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi. Lögreglan biður umræddan ökumann, sem er kona og líklega á fimmtugsaldri, um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu, eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444-1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið hakon@lrh.is