23 Janúar 2014 12:00
Að gefnu tilefni hvetur lögregla kaupendur til árvekni við verslun á vefsíðum þar sem meðal annars eru seldar notaðar vörur eins og farsímar, fatnaður, reiðhjól og fleira. Mikilvægt er í þessum tilvikum að sannreyna að vörurnar séu ekki stolnar áður, til dæmis með því að seljandi sýni kvittun fyrir vörunni. Of oft gerist það að mati lögreglu að þýfi finnst í fórum kaupenda sem bera við að þeir hafi ekki vitað að varan var stolin, vita ekki nafn seljanda, heimilisfang eða annað sem að gagni má koma við rannsókn málsins, en finnst engu að síður sárgrætilegt og ósanngjarnt að varan sé af þeim tekin og komið í vörslu réttmæts eiganda.
Lögregla bendir í þessu sambandi á að ef engir eru kaupendur að stolnum munum þá er hvatinn til þjófnaðar farinn. Höfum það í huga þegar ódýrir munir bjóðast!