17 Október 2013 12:00
Árleg fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hófst á þriðjudag. Að þessu sinni voru Mosfellingar fyrstir í röðinni, en fundað var í stjórnsýsluhúsinu í Mosfellsbæ. Mætingin var ágæt, en líkt og á fyrri fundum var farið yfir stöðu mála og þróun brota í sveitarfélaginu. Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, sem þjónar m.a. Mosfellingum, fór yfir helstu tölur og svaraði spurningum fundarmanna ásamt Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra, sem einnig sat fundinn.
Í stuttu máli sagt er staða mála í Mosfellsbæ almennt góð, en fjallað var sérstaklega um þjófnaði, innbrot, eignaspjöll og ofbeldisbrot. Tölfræðina frá fundinum má annars nálgast með því að smella hér. Að venju voru umræðurnar líflegar og fundarmenn höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Helst var gagnrýnt að engin lögreglustöð er í bænum, en 77% íbúa Mosfellsbæjar finnst lögregla óaðgengileg og nefna einmitt að það vanti lögreglustöð í byggðarlagið. Það og ýmislegt fleira forvitnilegt kemur fram í könnun, Þolendakönnun – viðhorf til lögreglu, en niðurstöður hennar voru jafnframt birtar á fundinum.