20 September 2013 12:00
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir ágústmánuð 2013 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þau tilteknu brot sem tilgreind eru í stefnu LRH og hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina það sem af er ári og á síðustu 13 mánuðum auk þess sem sjónum er beint að þróuninni á svæðum embættisins.
Þjófnuðum hefur fækkað um 10% samanborið við sama tímabil árið 2012, innbrotum um 19%, eignaspjöllum um 11% og ofbeldisbrotum um 5% prósent. Umferðarslysum fjölgaði um 8% á milli ára.
Tilkynnt var um 336 þjófnaði í ágúst sem er fjölgun á milli mánaða. Á sama tíma á síðasta ári voru brotin 432. Tilkynningum um hnuplmál og þjófnuðum á gsm símum fjölgaði mest á milli mánaða en einnig fjölgaði innbrotum. Tilkynningum um eignaspjöll fjölgaði verulega á milli mánaða og voru 118 talsins í ágúst, sem er með því mesta í einum mánuði það sem af er ári. Þar af fjölgaði tilkynningum um rúðubrot umtalsvert. Þetta eru jafnframt fleiri tilkynningar en á sama tíma á síðasta ári. Ofbeldisbrotum fækkaði á milli mánaða. Umferðarslys voru 34 í ágúst sem er lítilsháttar fækkun frá síðasta mánuði.
Á svæði lögreglustöðvar 1 sem nær yfir Háaleiti, Hlíðar og Laugardal, fækkaði tilkynningum um þjófnaði á milli mánaða fimmta mánuðinn í röð. Fjöldi þjófnaða var tvöfalt meiri á svæðinu í ágúst í fyrra. Íbúar á svæði lögreglustöðvar 2 sem nær yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes voru sérlega friðsamir í ágúst en þá voru einungis tilkynnt tvö ofbeldisbrot sem er minnsti fjöldi tilkynninga á svæðinu í einum mánuði síðan snemma árs 2011.
Skýrsluna má nálgast hér.