20 Júní 2013 12:00
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maímánuð 2013 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um þau tilteknu brot sem tilgreind eru í stefnu LRH og hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina það sem af er ári og á síðustu 13 mánuðum auk þess sem sjónum er beint að þróuninni á svæðum embættisins.
Fimmtungsfækkun er á innbrotum samanborið við sama tímabil á síðasta ári. Þjófnuðum hefur fækkað almennt um 6% og þá hefur eignaspjöllum fækkað um 14%. Fjöldi ofbeldisbrota hefur breyst lítið. Tilkynnt var um 337 þjófnaði í maí sem er nokkur fækkun frá síðasta mánuði. Fjöldinn er jafnframt minni en á sama tíma á síðasta ári. Tilkynningum um innbrot, hnupl, þjófnaði á eldsneyti og gsm símum fækkaði, á meðan tilkynningum um þjófnaði á skráningarmerkjum og bensíni fjölgaði. Hnupltilkynningar voru tvöfalt fleiri í marsmánuði.
Fjöldi tilkynninga um reiðhjólaþjófnaði stóðu í stað, en jafnan hefur verið nokkur stígandi í reiðhjólaþjófnuðum í maí og hefur fjöldi tilkynninga yfirleitt náð hámarki um mitt sumar. Fjöldi reiðhjólaþjófnaða var mun meiri á sama tíma í fyrra þannig að það er ljóst að mjög ánægjuleg þróun er hér á ferðinni. Fara þarf aftur til ársins 2008 til að finna færri þjófnaði á reiðhjólum í maímánuði. Þá stefnir í að þeim fækki einnig í júní. Reiðhjólamenning er í miklum blóma á höfuðborgarsvæðinu og hugsanlega er almenningur betur á varðbergi fyrir þessari hættu en oft áður. Lögregla hvetur eigendur reiðhjóla áfram til að ganga tryggilega frá hjólum sínum og skrá hjá sér stellnúmer.
Skýrsluna má nálgast hér.