13 Mars 2013 12:00
Í síðustu viku slösuðust 17 vegfarendur í átta umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu. Slasaðir hafa ekki verið fleiri á einni viku frá áramótum. Munar þar mestu um tvö slys í óveðrinu á miðvikudag þar sem samtals átta slösuðust.
Við greiningu á árekstrum og slysum sem urðu á miðvikudag, þegar hálka var á vegum og hríðarbylur úti, virðist sem sumir ökumenn hafi ekið allt of hratt miðað við aðstæður. Bæði ber fjöldi óhappa þess merki sem og vitnisburður um að ökutækjum, þungum jeppum þar á meðal, hafi verið ekið með ótrúlegum hraða þrátt fyrir lítið sem ekkert skyggni og langa stöðvunarvegalengd. Af þessu hafi hlotist bæði eigna- og slysatjón.
Lögregla minnir því á að gætilegur hægur akstur þegar skyggni er lítið og hálka á vegum, er best til þess fallinn að fyrirbyggja óhöpp og slys. Beinir hún því sérstaklega til þeirra ökumanna sem ekki höfðu þessa einföldu varúðarreglu í huga á miðvikudag.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna sem áttu sér stað vikuna 4. til 10. mars:
Þriðjudaginn 5. mars um klukkan 12 var bifreið ekið inn á Miklubraut frá Grensásvegi og í veg fyrir ökutæki á leið um Miklubraut. Einn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er brot gegn biðskyldu.
Miðvikudaginn 6. mars um klukkan 10 varð 15 bíla árekstur á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk. Allar voru bifreiðarnar á leið suður Hafnarfjarðarveg. Mikil hálka var á þessum tíma og hríðarbylur. Fjórir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur og of hraður akstur miðað við aðstæður.
Miðvikudaginn 6. mars um klukkan 10 var strætóbifreið ekið Vesturlandsveg við Korputorg og aftan á bifreið er við það lenti aftan á enn annarri. Tveir voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur og of hraður akstur miðað við aðstæður.
Miðvikudaginn 6. mars um klukkan 11 var bifreið ekið yfir á öfugan vegarhelming á Suðurlandsvegi við Rauðavatn og framan á bifreið er kom úr gagnstæðri átt. Fjórir farþegar voru í bifreið þeirri er ekið var á auk ökumanns og voru allir fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur akstur.
Miðvikudaginn 6. mars um klukkan 21 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku á Vesturlandsvegi við Höfðabakkabrú með þeim afleiðingum að hún lenti á brúarveggnum. Ökumaður og farþegi leituðu sér báðir aðhlynningar á slysadeild. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur og of hraður akstur miðað við aðstæður.
Föstudaginn 8. mars um klukkan 9 var almenningsvagni ekið Miklubraut við Skaftahlíð og nauðhemlað sökum bifreiðar sem var kyrrstæð við gatnamótin. Farþegi sem stóð í vagninum féll þá við og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg orsök slyssins er ógætilegur of hraður akstur og eins ónóg aðgæsla þess ökumanns sem var við gatnamótin.
Laugardaginn 9. mars um klukkan 18 ætlaði ökumaður á leið suður Suðurlandsveg við Rauðavatn að taka U- beygju yfir óbrotna línu þar sem hann taldi sig vera á leið í öfuga átt. Hann ók þar í veg fyrir ökutæki á leið suður einnig þannig að árekstur varð. Tveir leituðu sér aðhlynningar á slysadeild í kjölfarið. Orsök slyssins er rakin til ógætilegrar U-beygju þar sem slík beygja er óheimil.
Sunnudaginn 10. mars um klukkan 15 tók ökumaður U- beygju á gatnamótum Sæbrautar við Skúlagötu og í veg fyrir aðvífandi ökumann á bifhjóli þannig að árekstur varð. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Orsök slyssins er rakin til ógætilegrar vinstri beygju á vegamótum