8 Janúar 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu benti á það í síðustu viku að í langflestum tilvikum megi rekja umferðarslys og óhöpp til ógætilegs aksturs ökumanna, hraðaksturs, of stutts bils milli ökutækja og svo framvegis. Það væri því á valdi ökumanna sjálfra að fækka slysum með aukinni aðgæslu og gera þannig sitt svo aðrir megi komast heilir heim. Lögreglan skoraði í þessu sambandi á ökumenn að freista þess að fækka slysum úr sjö að meðaltali á viku, eins og reyndin var árið 2012, í þrjú til fjögur að meðaltali.
Lögreglan kynnti á sama tíma markmið sitt um að senda upplýsingar um fjölda slysa í viku hverri, fara yfir mögulegar ástæður þeirra og eftir atvikum hvort og þá hvaða ráðstafanir gætu dugað til að koma í veg fyrir samskonar slys.
Tölur liggja nú fyrir frá þriðjudeginum 1. janúar til sunnudagsins 6. janúar. Fækkun slysa á þessum fyrstu dögum ársins er því miður engin. Sjö umferðarslys voru tilkynnt lögreglu á nefndu tímabili.
Í þremur þessara tilvika var ekið á gangandi vegfaranda, í öðrum þremur var um útafakstur að ræða og ein aftanákeyrsla.
Ljóst má vera, miðað við upplýsingar lögreglu, að í öllum þeim tilvikum sem um ræðir hefði verið hægt að koma í veg fyrir slysin með meiri tillitssemi og aðgát ökumanna. Þá má ætla að í einu tilviki hafi gangandi vegfarandi mátt sýna meiri aðgát.
Tímasetning, aðdragandi og líklegar orsakir slysanna voru annars eftirfarandi:
Um klukkan 15 miðvikudaginn 2. jan. var bifreið bakkað á gangandi vegfaranda við Landspítala í Fossvogi. Sá sem ekið var á þurfti aðhlynningar við á slysadeild. Líkleg ástæða slyssins er óaðgæsla ökumanns við akstur aftur á bak.
Um klukkan 13 fimmtudaginn 3. jan. missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku á Reykjanesbraut við Breiðhellu sem varð til þess að bifreiðin valt utan vegar. Ökumaður var einn í bifreiðinni og fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg ástæða slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður.
Um klukkan 19 fimmtudaginn 3. jan. varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg ástæða slyssins er of stutt bil milli bíla og ógætilegur of hraður akstur miðað við aðstæður.
Um klukkan 14 laugardaginn 5. jan. var ekið á gangandi vegfaranda við Kringluna gegnt verslunarmiðstöðinni. Hinn gangandi var á leið yfir götuna er slysið varð. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg ástæða slyssins er óaðgæsla ökumanns við akstur. Þá var gangbraut skammt frá slysstað en ekki notuð af hinum gangandi.
Um klukkan 16 laugardaginn 5. jan. ristarbrotnaði ungur drengur á bifreiðaplani við Smáratorg, þegar bifreið var ekið af stað og yfir fót hans. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg ástæða slyssins er óaðgæsla ökumanns við akstur.
Rétt fyrir klukkan 21 laugardaginn 5. jan. missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku á Suðurlandsvegi við Vesturlandsveg, lenti á vegriði og þá á ljósastaur. Ökumaður og farþegi leituðu í framhaldinu til slysadeildar til aðhlynningar. Líkleg ástæða slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður.
Rétt fyrir klukkan 4 aðfaranótt sunnudagsins 6. jan. missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í hálku á Kringlumýrarbraut við Listabraut. Tveir farþegar voru í bifreiðinni auk ökumanns. Allir voru í bílbeltum. Bifreiðin snérist heilan hring og endaði með vinstra afturhorn á vegriði. Farþegi var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Líkleg ástæða slyssins er of hraður akstur miðað við aðstæður.