14 Janúar 2013 12:00
Þennan mánuðinn fylgist lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega með ljósabúnaði ökutækja í umdæminu. Allnokkrir hafa verið stöðvaðir vegna þessa en ýmist vantaði ljós að framan eða aftan en ökumönnunum var góðfúslega bent á að skipta um perur, öryggi eða annað það sem bilað var. Ökumenn eru hvattir til að ganga úr skugga um að ljósin séu í lagi enda er hér um mjög mikilvægt öryggisatriði að ræða. Þau þurfa einfaldlega alltaf að vera í lagi og ekki síst í skammdeginu.
Í janúar fylgist lögreglan líka sérstaklega með notkun bílbelta. Þótt mikilvægi bílbelta sé flestum ljóst eru enn margir sem hirða ekki um að nota þennan sjálfsagða öryggisbúnað. Gögn sýna að líkurnar á því að slasast í umferðinni eru margfalt meiri meðal þeirra sem nota ekki bílbelti. Því er mjög mikilvægt að ökumenn og farþegar spenni alltaf beltin.