16 Desember 2013 12:00
Föstudaginn 13. desember 2013 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Brautskráðir voru 19 nemendur sem hófu grunnnám við skólann þann 15. janúar 2013. Fimm konur, 26,3%, voru í hópi brautskráðra.
Við athöfnina fluttu ávörp Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Hafsteinn Viktorsson, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina.
Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náðu Davíð Finnbogason og Gunnar Þór Þorsteinsson, 8,97, með aðra hæstu einkunn var Árni Gunnar Ragnarsson, 8,93. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,24 sem er mjög góður árangur.
Hanna Birna Kristjánsdóttir afhenti Davíð Finnbogasyni og Gunnari Þór Þorsteinsyni sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra á sínum tíma, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.
Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda Lögreglumann skólans og varð Þórir Guðmundsson fyrir valinu.
Ljósmyndina tók Ómar Óskarsson, ljósmyndari Morgunblaðsins
Ljósmyndina tók Ómar Óskarsson, ljósmyndari Morgunblaðsins