16 Desember 2013 12:00
Eitt þúsund ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu um helgina í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan heldur nú úti í umdæminu. Fjórir ökumenn reyndust ölvaðir við stýrið og eiga þeir ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Þremur til viðbótar var gert að hætta akstri sökum þess að þeir höfðu neytt áfengis en voru þó undir refsimörkum. Við fyrrnefnt umferðareftirlit naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar félaga sinna frá embætti ríkislögreglustjóra.
Lögreglan var annars mjög víða við eftirlit, en samtals voru tuttugu og þrír ökumenn teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Nítján þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, tveir í Kópavogi og einn í Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Fimm voru teknir á föstudagskvöld, tíu á laugardag og átta á sunnudag. Þetta voru nítján karlar á aldrinum 17-59 ára og fjórar konur, 17-39 ára. Átta þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.
Einn ökumannanna, 17 ára piltur, var tekinn tvisvar um helgina. Fyrst á föstudagskvöld og svo aftur á laugardagskvöld, en í bæði skiptin var hann í annarlegu ástandi.