9 Október 2013 12:00
Rannsóknardeild lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu hefur frá því um miðjan maí sl. aðstoðað bandarísk yfirvöld við rannsókn á starfsemi vefsíðunnar Silkroad sem hýsti markaðssvæði með ólögleg fíkniefni og aðra ólögmæta starfssemi. Aðstoðin var veitt á grundvelli réttarbeiðni og fólst í öflun rafrænna gagna um vefsíðuna sem hýst var hér á landi. Lauk þessari rannsóknaraðstoð með aðgerðum hér á landi í síðustu viku þar sem Silkroad vefsíðan var tekin niður og haldlagður rafrænn gjaldmiðill, Bitcoin, að jafnvirði yfir 3 milljónir bandaríkjadala. Ekki eru önnur tengsl við Ísland en þau að vefsíðan var hýst hér á landi, engar handtökur voru framkvæmdar vegna þessa hér á landi og engir innlendir aðilar tengjast að öðru leyti rekstri hennar. Rannsókn málsins er á forræði FBI og er öllum fyrirspurnum vísað þangað. Frekari upplýsingar um málið verða ekki veittar af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.