3 Maí 2013 12:00
Allmörg fíkniefnamál hafa komið til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Kannabisræktun var stöðvuð í húsi í Garðabæ í gær og önnur í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði í fyrradag. Enn ein ræktunin var svo stöðvuð í íbúð fjölbýlishúss í Hafnarfirði eftir hádegi í dag, en í húsleitunum hefur verið lagt hald á fjölda kannabisplantna. Einn fíkniefnasali var handtekinn í Breiðholti í gær og annar í Hafnarfirði, en lagt var hald á kannabisefni og peninga, sem taldir eru vera tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Í þessum aðgerðum voru höfð afskipti af allnokkrum aðilum til viðbótar, sem allir voru með fíkniefni í fórum sínum. Einstaklingarnir sem koma við sögu í áðurnefndum málum eru allt karlmenn og eru þeir nær allir á þrítugsaldri.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.