18 Apríl 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann fíkniefni við húsleit í íbúð í Kópavogi í gær. Um var að ræða amfetamín, e-töflur og kannabis. Tveir menn á þrítugsaldri voru í íbúðinni þegar lögreglan kom á vettvang og henti annar þeirra fíkniefnum út um glugga. Það skilaði þó ekki tilætluðum árangri því þau fundust, sem og fíkniefnin innandyra. Mennirnir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.
Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.