1 Febrúar 2013 12:00
Umfangsmikið fíkniefnamál er nú til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en í síðustu viku var lagt hald á verulagt magn af því sem talið er vera sterk fíkniefni. Það voru starfsmenn tollyfirvalda, með aðstoð fíkniefnaleitarhunda, sem fundu efnin, en þau voru send í nokkrum póstsendingum til landsins. Nokkrir hafa verið handteknir í þágu rannsóknarinnar, en á föstudag í síðustu viku voru tveir karlar á fertugsaldri úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald, eða til 8. febrúar, á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þrír karlar til viðbótar, einn á þrítugsaldri og tveir á fimmtugsaldri, voru handteknir fyrr í vikunni og voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 7. febrúar. Flestir fimmmenninganna hafa áður komið við sögu hjá lögreglu, mismikið þó.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu, en það er unnið í samvinnu við dönsk lögregluyfirvöld. Við aðgerðirnar hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu jafnframt notið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.