24 Janúar 2013 12:00
Daglega sér lögreglan hluti í umferðinni sem betur mætti fara. Vegfarendur eru líka sjálfir duglegir að koma ábendingum á framfæri, en öll viljum við stuðla að meira öryggi í umferðinni. Því er hægt að ná með ýmsu móti en mikilvægt í því sambandi er ekki síst að ökumenn búi yfir þolinmæði og tillitssemi. Á þessu er stundum skortur en þetta er rifjað upp hér vegna atviks í umferðinni á dögunum. Karl á miðjum aldri ók þá bíl sínum einn morguninn í lítilli umferð vestur Suðurlandsbraut og hugðist halda áfram sömu leið eftir Laugavegi. Við gatnamót að Kringlumýrarbraut kom rautt ljós og því nam maðurinn staðar. Einhverjum sekúndum seinna, á meðan enn logaði rautt ljós á fyrirhugaðri akstursstefnu, varð maðurinn var við sjúkrabíl í forgangsakstri. Sjúkrabílnum, með blá blikkandi ljós og tilheyrandi sírenuhljóði, var ekið norður Kringlumýrarbraut. Sjúkrabíllinn var svo gott sem kominn að þessum fyrrnefndu gatnamótum þegar grænt ljós kviknaði á akstursstefnu mannsins, en sá hugðist aka vestur Laugaveg eins og áður sagði . Hinn sami aðhafðist eðlilega ekkert heldur beið eftir því að sjúkrabíllinn færi yfir gatnamótin. Nú er frá því að segja að aftan við bíl mannsins var annar bíll og í honum ökumaður sem beið þess líka að aka vestur Laugaveg. Sá var hins vegar á svo mikilli hraðferð að hann flautaði hraustlega þegar græna ljósið kviknaði enda hreyfðist bíllinn fyrir framan ekki úr stað. Ökumaðurinn á fremra bílnum, sem síðar tilkynnti um málið til lögreglu, sagðist eitt andartak hafa hugleitt að fara út úr bílnum á gatnamótunum og ganga að bíl hins óforskammaða ökumanns og lesa honum pistilinn. Af því varð þó ekki en tilkynnandi bætti við að sennilega þýddi heldur ekkert að ræða við svona hálfvita, eins og hann orðaði það. Að endingu má geta þess að sjúkrabíllinn var fljótur yfir gatnamótin og í kjölfar þess var hinum bílunum tveimur ekið áfram og inn á Laugaveg enda logaði græna ljósið ennþá fyrir akstursstefnu þeirra. Tafir ökumannanna tveggja vegna neyðaraksturs sjúkrabílsins voru því í mesta lagi fáeinar sekúndur, en það var meira annar þeirra gat þolað.