14 September 2012 12:00
Karl á fimmtugsaldri er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á fíkniefnaframleiðslu í Reykjavík. Ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir manninum verður tekin síðar í dag. Rannsókn málsins er enn á frumstigi og því er ekki hægt að veita frekari upplýsingar um gang hennar.
Eins og kom fram í tilkynningu lögreglunnar í gærkvöld fann hún búnað til framleiðslu fíkniefna í bílskúr í austurborg Reykjavíkur síðdegis i gær. Lagt var hald á tæki og tól sem og efni til að framleiða fíkniefni en unnið var að því með aðstoð sérfræðinga frá Háskóla Íslands og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að fjarlægja búnaðinn af vettvangi. Talið er að amfetamín hafi verið framleitt í bílskúrnum en húsráðandi, karl á fimmtugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og vistaður á lögreglustöð. Engin sprengihætta var samfara þeim aðgerðum lögreglu sem að framan var lýst.