24 Ágúst 2012 12:00
Afskiptum lögreglu af fólki í umferðinni er ekki alltaf vel tekið. Þetta átti t.d. við um karl sem virti ekki innakstursbann og ók bíl sínum gegn einstefnu í miðborginni. Í framhaldinu lagði hann síðan bílnum á gangstétt í sömu götu og hindraði þannig umferð gangandi vegfarenda. Ökumanninum var bent á að svona háttalag væri ekki til fyrirmyndar en í ofan á lag notaði maðurinn ekki bílbelti. Aðspurður um það síðastnefnda sagði maðurinn að hann hefði ekið svo stutta vegalengd að notkun bílbeltis hefði verið algjörlega óþörf. Hann gaf lítið fyrir hin brotin og neitaði sök með öllu og sagði það hlutverk lögreglunnar að greiða fyrir leið hans. Þrátt fyrir eindreginn vilja lögreglumanna á vettvangi til að klára málið á staðnum reyndist það ókleift því ökumaðurinn varð öskureiður vegna þessara afskipta. Hann hótaði lögreglumönnunum öllu illu og var með mjög ógnandi framkomu. Ökumaðurinn var því fluttur á lögreglustöð en á leiðinni þangað þurfti að færa hann í handjárn af öryggisástæðum. Eftir stutta dvöl á lögreglustöð hélt maðurinn sína leið. Hann hafði örlítið róast en var sem fyrr mjög ósáttur við afskipti lögreglunnar og ranga túlkun hennar á umferðarlögum.