27 Júní 2012 12:00
Kanadískur ferðamaður varð fyrir því óláni um helgina að farangri hans var stolið á hóteli, sem hann gisti á í miðborginni. Um var að ræða veruleg verðmæti, m.a. fartölvu og iPad, og skyggði þjófnaðurinn auðvitað á annars ánægjulega heimsókn mannsins til Íslands. Í morgun gat ferðamaðurinn hins vegar tekið gleði sína á ný, allavega að einhverju leyti, því lögreglunni hafði tekist að finna hina stolnu muni, eða flesta þeirra og þ.á. m. fartölvuna og iPad-inn. Í framhaldinu kom maðurinn á lögreglustöðina og sótti hlutina sína og mátti það ekki seinna vera því ferðamaðurinn átti bókað flug til vesturheims síðdegis í dag. Sjálfsagt verður Íslandsheimsóknin manninum minnisstæð, en vonandi standa bara góðu minningarnar upp úr.