4 Maí 2012 12:00
Eitt af verkefnum lögreglu er að hafa afskipti af ökumönnum sem tala í síma í umferðinni án þess að notast við handfrjálsan búnað. Mál af þessu tagi eru iðulega afgreidd á vettvangi fljótt og vel og síðan halda ökumennirnir áfram för sinni, búnir að leggja frá sér símann og einbeita sér að akstrinum. Karl á þrítugsaldri var einmitt stöðvaður í umferðinni fyrir þessar sakir á dögunum en viðbrögð hans voru með óvenjulegasta móti. Maðurinn mátti ekkert vera að bíða eftir því að lögreglan afgreiddi málið á vettvangi og því tók hann á rás og hljóp eins og byssubrenndur út í buskann. Sjálfsagt hefur hann slegið persónulegt hraðamet í þessu hlaupi án þess þó að um það sé hægt að fullyrða. Lögreglumönnunum á vettvangi þótti uppátækið heldur undarlegt enda maðurinn ekki grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur né mældist bíllinn hans á of miklum hraða. Reyndar voru ökuréttindin útrunnin en það kallar sjaldnast á viðbrögð af þessu tagi. Ekki var lagt í mikla leit að manninum enda talið víst að hann myndi sjá að sér. Sú varð líka raunin og eftir drjúga stund mætti viðkomandi á lögreglustöð til að gera hreint fyrir sínum dyrum, eða svo var haldið. Spurður um athæfið kannaðist maðurinn bara ekkert við það en sagðist hins vegar vera kominn á lögreglustöð til að kæra þjófnað á bílnum. Sjálfur hefði hann ekki verið undir stýri og þaðan af síður talandi í símann í akstri. Lygasaga mannsins var svona rétt sæmilega æfð en hann gleymdi hins vegar alveg að gera ráð fyrir þeim möguleika að lögreglan ætti hljóð- og myndupptöku af símtalinu og upphafi hlaupsins. Eftir að sú staðreynd varð manninum ljós lét hann af leikaraskapnum og viðurkenndi strax allan þátt sinn í málinu.
Við þetta má bæta að undanfarna daga hefur lögreglan stöðvað marga aðra ökumenn sem voru að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Enginn þeirra sá ástæðu til að yfirgefa vettvang svona skyndilega.