9 Maí 2012 12:00
Vegna umfjöllunar Ríkissjónvarpsins í gær, þann 8. maí, telur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum rétt að geta þess að rökstuddur grunur leikur á að þeir aðilar sem dæmdir voru til 30 daga fangelsisrefsingar þann 30. apríl sl. og sögðust vera 15 og 16 ára séu eldri en þeir fullyrða. Aðilarnir kusu að áfrýja ekki niðurstöðu héraðsdóms. Umræddir aðilar framvísuðu fölsuðum skilríkjum við landamæraeftirlit og höfðu engin önnur skilríki í fórum sínum og hafa því ekki getað sannað á sér deili. Umræddir aðilar hafa til meðferðar hælisumsóknir í Finnlandi og er mál þeirra til rannsóknar hjá þarlendum yfirvöldum sem telja rökstuddan grun fyrir því að aðilarnir séu eldri en þeir halda fram en það mun þurfa að leiða í ljós með aldursgreiningarrannsókn.
Hæstiréttur hefur staðfest alvarleika þess að falsa opinber skilríki og framvísa þeim á landamærum og liggur fyrir áralöng dómaframkvæmd að þeir sem gerist sekir um slíkt brot hljóti 30 daga fangelsisrefsingu.
Þá hefur Hæstiréttur staðfest að til að 31. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu Þjóðanna eigi við þurfi aðilar að koma beint frá landi þar sem lífi þeirra eða frelsi var ógnað og gefa sig tafarlaust fram við stjórnvöld og bera fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu eins og ákvæði samningsins ber með sér en hvorugu þessara skilyrða var fullnægt í umræddum tilvikum.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum getur ekki veitt frekari upplýsinga um málið þar sem það sætir rannsókn hjá erlendum yfirvöldum og eru málefni aðilanna til umfjöllunar hjá Útlendingastofnun.