18 Maí 2012 12:00
Margir þekkja þá óþægilegu tilfinningu að hafa læst sig úti. Öllu sjaldgæfara er að fólki sé óvart læst inni en kemur þó fyrir. Sú var einmitt raunin með ónefnda konu á höfuðborgarsvæðinu en konan býr í fjölbýlishúsi. Konan þurfti skyndilega að sinna kalli náttúrunnar og fór þá auðvitað á klósettið. Hún lokaði hurðinni á eftir sér, læsti og sinnti síðan erindinu. Þegar því var lokið hugðist konan snúa sér að öðrum verkum annars staðar í íbúðinni. En þá vandaðist málið því konan gat ekki opnað hurðina saman hvað hún reyndi. Í þeirri erfiðu stöðu var fátt annað að gera en að hrópa og kalla eftir hjálp og það gerði konan. Nágrannar heyrðu til hennar án þess þó að gera sér fulla grein fyrir aðstæðum á vettvangi. Hringt var í lögregluna sem brást skjótt við en þegar hún kom á staðinn hafði konan náð að brjóta sér leið út af klósettinu. Ekki er talið að konunni hafi orðið meint af en einhverjar skemmdir urðu á hurðinni.