31 Maí 2012 12:00
Einhver ónáttúra hljóp í fjóra unga karla í Grafarvogi á tólfta tímanum í gærkvöld. Piltarnir fóru úr hverri spjör og tóku síðan upp á því að hlaupa naktir um Strandveg á móts við Gufunesbæ. Vegfarendum blöskraði eðlilega þessi háttsemi og ökumenn spöruðu ekki bílflautuna. Lögreglan fór á vettvang eftir að tilkynning barst um málið en þá höfðu strípalingarnir klætt sig aftur í fötin og haft sig á brott. Ekki er vitað hvað þeim gekk til með þessu uppátæki. Að sögn sjónarvotts veifuðu mennirnir ýmist höndunum á meðan á þessu stóð eða héldu fyrir sitt allra heilagasta. Mögulega finnst einhverjum svona fíflaskapur fyndinn en það hefði orðið heldur neyðarlegt, svo ekki sé nú talað um hættuna, að verða fyrir bíl við þessar aðstæður.