16 Apríl 2012 12:00
Sautján ára piltur var staðinn að ofsaakstri á Þingvallavegi um kvöldmatarleytið á laugardag en bíll hans mældist þar á 164 km hraða. Pilturinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók í framhaldinu inn í eitt af hverfum Mosfellsbæjar. Þar skildi hann bílinn eftir og freistaði þess að komast undan á tveimur jafnfljótum. Lögreglan sá hinsvegar við piltinum og handtók bæði hann og farþega sem var í bílnum. Sá er á svipuðu reki en þeir kumpánar voru fluttir á lögreglustöð samhliða því sem haft var samband við forráðamenn þeirra.
Ekki þarf að hafa mörg orð um þennan glórulausa akstur og þá stórkostlegu hættu sem ökumaðurinn setti sjálfan sig, farþegann og alla aðra vegfarendur í með þessum dómgreindarskorti. Það er líka áhyggjuefni að þessi sami ökumaður hefur áður gerst sekur um ofsaakstur og því er ekki að sjá að hann hafi lært mikið af reynslunni. Pilturinn fær nú væntanlega góðan tíma til að hugsa sinn gang en hann má teljast stálheppinn að hafa hvorki valdið sjálfum sér eða öðrum líkamlegum skaða með háttsemi sinni.