30 Apríl 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í fjölbýlishúsi í miðborginni fyrir helgina. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust rúmlega 30 kannabisplöntur á lokastigi ræktunar. Á sama stað var einnig lagt hald á um 400 grömm af marijúana, sem var tilbúið til sölu, og fartölvu, en henni hafði verið stolið úr bifreið fyrir um ári síðan. Karl um þrítugt var yfirheyrður í þágu rannsóknarinnar. Upphaf málsins má rekja til tilkynningar um kannabislykt en lyktin reyndist eiga upptök steinsnar frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.