28 Mars 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í fjölbýlishúsi í austurborginni á dögunum. Við húsleit á áðurnefndum stað var lagt hald á 10 kannabisplöntur en húsráðandi, karl um fertugt, játaði greiðlega aðild sína að málinu. Upphaf þess má þakka árverkni lögreglumanna sem bókstaflega runnu á lyktina þegar þeir áttu leið framhjá umræddu húsi. Enginn reyndist heima þegar bankað var upp á og því var lögmaður fenginn á staðinn til að gæta hagsmuna leitarþola áður en farið var inn í íbúðina. Húsráðandi kom reyndar á vettvang skömmu síðar og var ekki mjög upplitsdjarfur þegar hann mætti laganna vörðum. Maðurinn tók hins vegar gleði sína á ný þegar lögreglan færði honum húslyklana en þá hafði hún fundið í íbúðinni. Húsráðandi sagðist hafa glatað lyklunum fyrir nokkru og síðan þurft að fara inn um glugga á svölunum í hvert sinn sem hann kom heim til sín. Því má kannski segja að það hafi verið lán í óláni að fá lögregluna í heimsókn.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.