3 Nóvember 2011 12:00
Konu á fertugsaldri, sem tók út reiðufé í banka í borginni um miðjan dag í gær, brá illilega þegar hún uppgötvaði að peningarnir voru horfnir. Konan var komin aftur í vinnuna þegar henni varð þetta ljóst en peningana hafði hún látið í umslag, sem nú fannst hvergi. Konan leitaði af sér allan grun og kærði síðan málið til lögreglu sem komst fljótt á sporið. Upphófst leit að konu á svipuðum aldri en sú hafði verið í bankanum á sama tíma. Eftir talsverða leit fannst umrædd kona í heimahúsi í borginni og reyndist hún vera með umslagið í fórum sínum. Í því voru allir peningarnir og einnig úttektarmiði með nafni og kennitölu hins réttmæta eiganda þeirra. Aðspurð um umslagið sagðist konan hafa tekið það í misgripum. Við svo búið var haldið á fund kæranda og peningarnir afhentir. Konan var að vonum mjög fegin enda ætlaði hún að borga húsaleigu fjölskyldunnar með þessum peningum.