17 Nóvember 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á tæplega 60 grömm af amfetamíni, rúmlega 100 grömm af marijúana og stera við húsleit í íbúð í fjölbýlishúsi í Árbæ í gær. Tveir karlar voru handteknir í þágu rannsóknarinnar en um var að ræða húsráðanda og gestkomandi aðila en sá síðarnefndi var með í fórum sínum tæplega 40 grömm af amfetamíni og rúmlega 30 grömm af marijúana og var það sömuleiðis tekið í vörslu lögreglu. Mennirnir, sem eru á fertugs- og sextugsaldri, játuðu aðild sína að málinu en báðir hafa þeir ítrekað komið við sögu hjá lögreglu. Fíkniefnaleitarhundur frá tollinum aðstoðaði við leitina.
Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.