4 Október 2011 12:00
Karlmaður á miðjum aldri hefur gefið sig fram við lögreglu og sagt að líklega eigi hann skothylkin sem fundust við Alþingishúsið í morgun. Maðurinn var á Austurvelli í gærkvöld en daginn áður var hann að svipast um eftir gæs og var því með örfá 22 kalíbera skot í brjóstvasanum. Hann taldi sig hafa misst nokkur skot á Austurvelli en var ekki viss í sinni sök fyrr en hann heyrði fjallað um málið í fréttunum. Maðurinn hefur lagt fram til samanburðar þau skot sem hann var með og reyndust þau vera sömu gerðar og skotin sem fundust við Alþingishúsið.
Maðurinn, sem er vanur veiðimaður, hefur gert grein fyrir ferðum sínum í gær en ekkert bendir til annars en hann hafi verið á Austurvelli í gærkvöld í friðsömum tilgangi. Að endingu má geta þess að lögreglan hefur rifjað upp með honum helstu reglur um vörslu og meðferða skotfæra. Af framansögðu telur lögreglan komna líklega skýringu á skothylkjunum sem fundust við Alþingishúsið.