4 Október 2011 12:00
Þótt lögreglumenn verði oft vitni að því versta í lífinu koma líka ánægjulegar stundir og þá fara þeir svo sannarlega glaðir heim af vaktinni. Svo var einmitt með tvo lögreglumenn sem voru kallaðir til aðstoðar í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu, laust eftir miðnætti. Þar voru hjón akandi á leiðinni á fæðingardeildina en þau óttuðust að ná ekki þangað í tæka tíð en konan var barnshafandi. Lögreglumennirnir komu þeim til aðstoðar og örskömmu síðar kom sjúkrabíll á vettvang. Ófríska konan og maðurinn hennar fóru yfir í sjúkrabíllinn og síðan var haldið áleiðis á fæðingardeildina en annar lögreglumannanna ók bíl hjónanna á eftir þeim. Lögreglubíllinn var líka í bílalestinni og einnig annar sjúkrabíll, sem var kallaður á staðinn til vonar og vara. Hersingin komst þó ekki alla leið því að á Miklubraut, á móts við Skeiðarvogsbrúna, kom barnið í heiminn. Þar var því stoppað í stutta stund áður en haldið var á Landspítalann.
Þegar fulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði samband við pabbann í dag og færði honum hamingjuóskir frá embættinu var hann auðvitað í skýjunum, rétt eins og hinir í fjölskyldunni en þetta er þriðja barn þeirra hjóna. Fyrir eiga þau strák og stelpu, 3 ára og 1 árs. Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er stelpa en hún var 3.505 grömm og 50 sentimetrar við fæðingu. Henni og móðurinni heilsast vel. Pabbinn bað fyrir kveðju og þakklæti til allra sem aðstoðuðu þau og grínaðist síðan með að þetta gerðist sem betur fer á Miklubrautinni að nóttu til en ekki í morgunumferðinni! Sjálfsagt líður þessi dagur hjónunum seint úr minni og það sama má segja um lögreglumennina á vettvangi. Annar þeirra sagði að það hefði verið frábært að vera til staðar og aðstoða fólkið og að þetta hefði verið langskemmtilegasta útkallið á vaktinni!