7 Október 2011 12:00
Talsvert er kvartað undan hávaða að næturlagi frá gleðskap í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu en tilkynningar þess efnis berast lögreglu í hverri viku. Tilefni veisluhalda er misjafnt en þó verður að teljast sjaldgæft að menn haldi sérstaklega upp á þann áfanga að þeir séu að fara að leggjast inn á spítala til að gangast undir aðgerð. Sú var þó raunin á dögunum þegar lögreglan var kölluð að fjölbýlishúsi í umdæminu en í einni íbúðinni stóð yfir fjörugt samkvæmi og hávaðinn var eftir því. Húsráðandi, karl á besta aldri, kom til dyra þegar bankað var upp á og var nokkuð undrandi á þessari heimsókn laganna varða. Sér til málsbóta sagðist maðurinn vera á leið í aðgerð á spítala og nú væru síðustu forvöð að sletta ærlega úr klaufunum því næstu vikurnar myndi hann ekkert komast á djammið, eins og hann orðaði það. Lögreglumennirnir á vettvangi hlustuðu skilningsríkir á manninn en bentu honum jafnframt á að hann yrði samt að taka tillit til nágranna sinna. Maðurinn féllst á það og var honum síðan óskað góðs bata áður en farið var af staðnum en þá var jafnframt komin ró yfir partígestina.