16 Ágúst 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði þrjár kannabisræktanir í Hafnarfirði á föstudag og laugardag. Nokkrir karlar voru handteknir og yfirheyrðir í tengslum við aðgerðirnar en lagt var hald á bæði kannabisplöntur og græðlinga auk ýmiss búnaðar sem fylgir svona starfsemi. Á einum staðnum var einnig lagt hald á töluvert af peningum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Á sunnudag var einnig framkvæmd húsleit í Hafnarfirði og þá fundust nokkrir tugir gramma af marijúana.
Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.