23 Ágúst 2011 12:00
Á Menningarnótt var áfram unnið skipulega gegn áfengisdrykkju og ólöglegri útivist barna og unglinga. Þeir sem höfðu ekki aldur til að vera úti við var vísað heim eða færðir í svokallað ungmennaathvarf, sem var komið upp í safnaðarheimili Dómkirkjunnar. Í athvarfið voru fluttir um 30 unglingar en ástand margra þeirra var heldur bágborið sökum áfengisdrykkju. Þaðan var hringt í foreldra og forráðamenn sem komu og sóttu krakkana. Ekki voru þetta þó einu afskipti lögreglunnar af unglingum en þeir sem voru með áfengi í fórum sínum urðu að láta það af hendi en talsverðu magni af áfengi var hellt niður á Menningarnótt. Tveir 12 ára piltar voru í þessum hópi en þeir voru staðnir að verki þegar þeir voru að selja öðrum unglingum áfengi! Haft var samband við foreldra piltanna sem komu og sóttu þá.