26 Júlí 2011 12:00
Fjórtán ára unglingspiltur var tekinn við akstur fólksbíls á Vesturlandsvegi í Reykjavík á þriðja tímanum sl. sunnudagsnótt. Bíll piltsins mældist á yfir 100 km hraða en með honum í ökuferðinni voru fimm vinir og/eða kunningjar á aldrinum 13-15 ára. Ökumaðurinn og farþegarnir voru fluttir á lögreglustöð en þaðan var hringt í foreldra og forráðamenn sem komu og sóttu krakkana. Eins og gefur að skilja hefur ökumaðurinn ekki aldur til að aka bíl en að auki á hann, sem og farþegarnir fimm, að vera heima hjá sér á þessum tíma sólarhrings.