26 Maí 2011 12:00
Eins og fram hefur komið fannst blandað metamfetamín, sem inniheldur svokallað PMMA og er mjög eitrað, hér á landi í síðasta mánuði. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur unnið að því að koma í veg fyrir frekari dreifingu á efninu og hefur m.a. framkvæmt sjö húsleitir af þeim sökum. Við þær og fleiri aðgerðir tengdar rannsókninni hefur verið lagt hald á ýmiss fíkniefni, m.a. umrætt PMMA. Ekki er samt hægt að fullyrða að lögreglan hafi komist yfir allt af hinu eitraða efni, sem hingað kom, og því er áfram eindregið varað við því að það kunni enn að vera á markaði hérlendis. Þá er það einnig verulegt áhyggjuefni að PMMA geti borist hingað aftur á nýjan leik.
Nú þegar hafa fimm tilvik verið staðfest þar sem PMMA kemur við sögu hér á landi. Í einu þeirra var um að ræða konu um tvítugt, sem fannst látin í íbúð í Reykjavík. Vitneskja er um að fíkniefna var neytt þar innandyra en það er jafnframt undirstrikað að endanleg niðurstaða varðandi dánarorsök konunnar liggur ekki fyrir. Þótt tilvikin séu fimm, líkt og áður sagði, að þá eiga fjórir einstaklingar í hlut. Einn þeirra er maður sem var tekinn fyrir umferðarlagabrot tvisvar sinnum með stuttu millibili og í bæði skiptin kom í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna, sem innihéldu PMMA.