1 Mars 2011 12:00
Undanfarnar vikur hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgist sérstaklega með stefnuljósanotkun ökumanna, eins og margoft hefur komið fram. Enn eru margir sem nota ekki stefnuljós, eins og kveðið er á um í umferðarlögum, og því er greinilega full þörf á eftirliti af þessu tagi. Um helgina voru t.d. höfð afskipti af rúmlega tvö hundruð ökumönnum sem gáfu ekki stefnuljós þegar við átti en hinir sömu eiga nú allir sekt yfir höfði sér.
Til upprifjunar er rétt að minna enn og aftur á 31. gr. umferðarlaga þar sem fjallað er um merki og merkjagjöf en þar segir m.a. orðrétt; (stefnuljós) skal gefa tímanlega og á greinilegan og ótvíræðan hátt, áður en stefnu ökutækis er breytt, snögglega dregið úr hraða þess eða það er stöðvað. Merkjagjöf skal hættt, þegar hún á ekki lengur við.