18 Mars 2011 12:00
Tveir karlar á þrítugsaldri voru handteknir í Breiðholti í nótt eftir að lögreglan stöðvaði þar ökutæki. Hjá þeim fannst allnokkuð af fíkniefnum en mennirnir voru einnig með talsvert af peningum í fórum sínum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Þess má jafnframt geta að sá þeirra sem sat undir stýri hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.
Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.