23 Mars 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í íbúð í Norðlingaholti í Reykjavík í fyrradag. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust um 70 kannabisplöntur og 700 grömm af marijúana. Karl á fertugsaldri var yfirheyrður í þágu rannsóknarinnar. Hann viðurkenndi bæði að standa að ræktuninni og eiga fíkniefnin sem fundust.
Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.