14 Desember 2010 12:00
Brot 109 ökumanna voru mynduð á Reykjanesbraut í Garðabæ í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Reykjanesbraut í suðurátt, á móts við Kauptún. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 965 ökutæki þessa akstursleið og því ók um tíundi hluti ökumanna, eða 11%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 94 km/klst en þarna er 80 km hámarkshraði. Tíu óku á 100 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 106.
Á umræddum vegarkafla hefur verið nokkuð um umferðaróhöpp og þannig var vöktun lögreglunnar tilkomin. Hún mun jafnframt verða við hraðamælingar á fleiri slíkum stöðum á næstunni. Þess má geta að við hraðamælingar á þessum sama stað á Reykjanesbraut fyrir rúmum tveimur vikum var brotahlutfallið nákvæmlega hið sama.