24 Desember 2010 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendir landsmönnum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár. Árið sem nú er að líða hefur verið annasamt hjá lögreglunni en ótal mál hafa komið til rannsóknar og/eða úrlausnar hjá embættinu. Þeirra á meðal eru fjölmörg fíkniefnamál en í sumar var lagt hald á 20 lítra af amfetamínbasa, sem reynt var að smygla til landsins með Norrænu. Úr amfetamínbasanum hefði mátt framleiða á bilinu 150 til 260 kg af amfetamíni, allt eftir styrkleika. Fleiri lögregluembætti, auk tollgæslunnar, komu að rannsókn þessa máls. Í haust var líka umfangsmikið fjársvikamál til rannsóknar hjá embættinu og hafa nokkrir aðilar setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við hana. Mótmælin voru líka á sínum stað, ef svo má segja, en þau fóru friðsamlega fram. Eitt mál hefur þó vakið mesta athygli og fengið mjög mikla umfjöllun í fjölmiðlum en það er manndrápsmálið í Hafnarfirði en í ágúst var karl á fertugsaldri myrtur á heimili sínu. Maður á þrítugsaldri hefur játað verknaðinn. Margt fleira hefur auðvitað komið á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á árinu en góðu fréttirnar eru einkum þær að innbrotum hefur fækkað í umdæminu í samanburði við síðasta ár. Þess má líka geta að lögreglan heldur áfram að auka og efla upplýsingaflæði til borgaranna en hún heldur úti síðum á bæði facebook og twitter.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112 en sólarhringslöggæsla er á höfuðborgarsvæðinu alla daga ársins. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver embættisins á Hverfisgötu 113-115, Reykjavík, í síma 444-1000.
Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is
Lögreglan minnir einnig á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.
Á höfuðborgarsvæðinu eru fimm lögreglustöðvar og sérstakt rannsóknarsvið á þeim öllum. Miðlæg rannsóknardeild embættisins rannsakar stærri og flóknari sakamál. Lögreglustöðvarnar eru þessar:
Lögreglustöð 1 – Hverfisgötu 113-115, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum austan Snorrabrautar til vestan Elliðaáa. Stöðvarstjóri: Árni Vigfússon.
Lögreglustöð 2 – Flatahrauni 11, Hafnarfirði – sími 444-1000. Sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Stöðvarstjóri: Ólafur G. Emilsson.
Lögreglustöð 3 – Dalvegi 18, Kópavogi – sími 444-1000. Sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti. Stöðvarstjóri: Sigurbjörn Víðir Eggertsson.
Lögreglustöð 4 – Krókhálsi 5b, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Stöðvarstjóri: Árni Þór Sigmundsson.
Lögreglustöð 5 – Hverfisgötu 113-115, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum vestan Snorrabrautar og á Seltjarnarnesi. Stöðvarstjóri: Ómar Smári Ármannsson.