20 Desember 2024 08:47

Sjöunda eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni lauk mánudaginn 9. desember 2024.  Síðast sást virkni í gígnum um kl. sjö  þann 8. desember sl.    Eldgosið milli Stóra – Skógfells og Sýlingarfells hófst  kl. 23:14 miðvikudaginn 20. nóvember sl. og stóð yfir í 18 daga.  Landris er hafið á ný á Svartsengissvæðinu.  Á meðan kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi eru auknar líkur á eldgosi.

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 9. desember 2024 að fara af hættustigi á óvissustig þar sem eldgosinu er lokið.   Tilkynning um breytingu á almannavarnastigi var birt á heimasíðu almannavarna þann dag kl. 16:06, sjá á slóðinni https://www.almannavarnir.is/

Veðurstofan uppfærði hættumatskort fyrir svæðið þann 17. desember sl. , sjá viðhengi.  Það gildir að öllu óbreyttu til 2. janúar 2025.

Viðbragðsaðilar, hópur vísindamanna og einstaklingar á vegum Blaðamannafélags Íslands, með vísan til samkomulags félagsins við lögreglustjórann á Suðurnesjum, er heimilt að fara inn á vinnusvæði í Svartsengi í samráði við stjórnendur vinnusvæða.   Samkomulagið við Blaðamannafélag Íslands gildir út janúar 2025.  Koma þarf við í björgunarhúsinu  í Grindavík áður en farið er inn á vinnusvæði.   Hús björgunarsveitarinnar Þorbjörns að Seljabót 10, Grindavík.

Opið er fyrir almenna umferð til og frá Grindavík um Grindavíkurveg, Nesveg og Suðurstrandarveg.  Færð á vegum getur spillst með stuttum fyrirvara á þessum tíma árs.

Þeir sem eiga erindi inn á hættusvæði er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni:  https://loftgaedi.is/   Þar eru jafnframt góðar leiðbeiningar. Bent er á upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni:  https://island.is/eldgos-heilsa  og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni:  https://vinnueftirlitid.is/

Frekari upplýsingar:

  • Íbúar og starfsmenn fyrirtækja dvelja inn á hættusvæði á eigin ábyrgð.   Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.  Það sama gildir um ferðamenn.
  • Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik.   Lögreglustjóri mælir ekki með því að íbúar dvelji í bænum.
  • Í Grindavík er talin vera nokkur hætta á jarðfalli ofan í sprungur.
  • Á starfssvæði Bláa lónsins og Northern Light Inn eru hættur metnar litlar eða mjög litlar en hættur taldar nokkrar á kvarða hættumatskortsins.
  • Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í hækkun varnagarða, í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun.  Þá hafa sprungur verið girtar af.
  • Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega.  Fólk haldi sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
  • Grindavík er opin fyrir almenna umferð.

Á svæði sunnan Voga og Reykjanesbrautar hefur verið leitað að sprengjum í gegnum tíðina.  Það svæði er talið mengað af virkum sem óvirkum sprengjum sem geta valdið manntjóni ef þær springa en hiti eða hreyfingar geta haft þar áhrif.  Staðsetning innan 300 metra frá miðpunkti stórrar sprengju getur valdið  manntjóni.   Á svæðinu eru fallbyssukúlur, sprengjuvörpur (Mortar) og æfingasprengjur.   Það er hins vegar aðeins fyrir  sprengjusérfræðinga að meta ástand og gerð þessara sprengna.  Þá liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu né stærð þessa svæðis en Landhelgisgæsla Íslands hefur dregið upp neðangreint kort til upplýsingar.   Inn á þessu svæði þurfa viðbragðsaðilar sem aðrir að halda sig við merkta gönguslóða.   Vakin er athygli á þessari hættu með skiltum sem staðið hafa við upphaf gönguleiða í áratugi.  Það þekkja heimamenn og útivistamenn sem gengið hafa um svæðið.   Nauðsynlegt er að vekja athygli á þessum staðreyndum nú þegar erlendir ferðamenn streyma inn á Reykjanesið til að berja gosstöðvarnar augum.   Það eru tilmæli lögreglustjóra til ferðaþjónustuaðila og þeirra sem veita erlendum ferðamönnum upplýsingar að koma þessum staðreyndum á framfæri við ferðamenn.   Ferðamenn haldi sig við merktar gönguleiðir og slóða.  Gosstöðvarnar eru ekki aðgengilegar fyrir ferðamenn við núverandi aðstæður.    Þá gætir mengunar frá nýju hrauni.  Skipulögð bílastæði eru ekki fyrir hendi né útsýnisaðstaða.   Ökumenn leggi ekki bílum á og við Reykjanesbraut.

Opið er í Bláa lónið og Northern Light Inn og hefur svo verið frá  6. desember sl.  Flóttaleiðir eru um Bláalónsveg og Grindavíkurveg.

Aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara.  Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.

Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settar upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík.  Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi.  Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.

Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangt.    Lögreglustjóri mælir ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður.

Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur.

Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/   þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni  www.almannavarnir.is

Með vísan til 23. gr. laga um almannavarnir nr. 88/2008 eru takmarkanir ekki aðrar en að framan greinir.

Framangreint fyrirkomulag gildir til 6. janúar 2025  að öllu óbreyttu.