21 Október 2010 12:00
Undarleg ljós sáust í Gufuneskirkjugarði í nótt og var lögreglan kölluð á vettvang. Samkvæmt tilkynningu áttu einhverjir að vera á ferli í kirkjugarðinum en ekki var vitað hvort þeir væru lífs eða liðnir. Tveir lögreglumenn voru sendir á staðinn og þar mætti þeim strax sterkt ljós. Við frekari eftirgrennslan reyndist birtan kom frá ljóskastara sem framhaldsskólapiltar voru að burðast með og því voru engir draugar hér á ferð. Strákarnir voru líka með myndbandsupptökuvél í fórum sínum en vera þeirra í kirkjugarðinum átti sér eðlilegar skýringar. Þeir voru að vinna að skólaverkefni og var þeim leyft að klára það úr því sem komið var. Tekið skal fram að piltarnir voru ekki með háreysti og gengu í alla staði mjög vel um þótt tímasetning þeirra hefði mátt vera betri.