Frá vettvangi á gatnamótum Bústaðavegar og Suðurhlíðar.
21 Nóvember 2024 11:33

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í fimmtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. –16.  nóvember, en alls var tilkynnt um 58 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 11. nóvember. Kl. 8.25 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á Krýsuvíkurvegi í Hafnarfirði, við Seltorg. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 16.12 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Suðurlandsvegi í Reykjavík, við Vesturlandsveg, en við það hafnaði bifreiðin utan vegar. Talið er að veikindum hafi verið um að kenna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.38 var bifreið ekið á reiðhjól á Grettisgötu í Reykjavík, en því var hjólað þvert yfir götuna að því að talið var. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 12. nóvember kl. 8.53 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Hamravík í Reykjavík, við Víkurskóla. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð vegfarandann sökum myrkurs og þess að hann var dökkklæddur. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 13. nóvember. Kl. 14.13 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar í Reykjavík. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Miklubraut og hinni bifreiðinni norður Háaleitisbraut þegar árekstur varð með þeim. Vitni sagði síðarnefndu bifreiðinni hafa verið ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.40 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Suðurhlíðar og Bústaðavegar í Reykjavík. Annarri bifreiðinni var ekið austur Bústaðaveg og hinni bifreiðinni suður Suðurhlíð þegar árekstur varð með þeim. Vitni sögðu fyrrnefndu bifreiðinni hafa verið ekið gegn rauðu ljósi. Báðir ökumennirnir og einn farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 14. nóvember. Kl. 14.17 var bifreið ekið á reiðhjól á Sóleyjargötu í Reykjavík, við Njarðargötu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.  Og kl. 14.51 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í Æsufelli í Reykjavík, við Norðurfell, en við það hafnaði hún á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um hraðakstur, var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 15. nóvember. Kl. 8 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, að Hamrahlíð, beygt þar til hægri og hafnaði þá á reiðhjóli sem þveraði götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.15 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ, við Breiðakur, en við það hafnaði bifreiðin á ljósastaur og valt. Hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 13.33 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Gullinbrú í Reykjavík, við Stórhöfða, þegar hann reyndi að forðast árekstur við gangandi vegfaranda, en við það hafnaði bifreiðin á umferðarljósavita. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.50 var bifreið ekið á kyrrstæða vörubifreið í Barkarvogi í Reykjavík, við Brúarvog. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 16. nóvember. Kl. 2.03 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Lækjargötu í Reykjavík, við Bankastræti. Svo virðist sem vegfarandinn hafi gengið gegn rauðu gangbrautarljósi. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.48 var bifreið bakkað úr stæði í Bjarkarholti í Mosfellsbæ og á aðra bifreið, sem við það kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Síðarnefndu bifreiðirnar voru báðar kyrrstæðar, en annar ökumanna þeirra klemmdist með fótinn á milli. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.11 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vesturlandsvegi í Reykjavík, við Suðurlandsveg, en við það hafnaði bifreiðin utan vegar og valt. Talið er að veikindum hafi verið um að kenna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.