15 Október 2024 10:53
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. október, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 6. október kl. 13.07 var rafmagnshlaupahjóli ekið í hlið bifreiðar á bifreiðastæði við Holtagarða í Reykjavík, en í aðdragandanum sagðist ökumaður rafmagnshlaupahjólsins hafa „óvart hafa gefið í“ með fyrrgreindum afleiðingum. Sami ökumaður var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 7. október kl. 17.55 var bifreið ekið á reiðhjól á gönguþverun á Norðlingabraut í Reykjavík, milli Ferjuvaðs og Bjallavaðs. Í aðdragandanum sagði ökumaðurinn að sólin hefði byrgt honum sýn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 8. október. Kl. 13.12 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni þegar hann ók vestur Vatnsendaveg í Kópavogi, frá Rjúpnatorgi. Við það valt bifreiðin á toppinn í vegöxlinni. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 23.57 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í bílakjallara við Smáralind í Kópavogi, en við það hafnaði hún á steinvegg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.59 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Kringlumýrarbraut, en hinni vestur Miklubraut svo árekstur varð með þeim. Síðarnefndi ökumaðurinn er talinn hafa ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 10. október kl. 19.35 var bifreið austur Miklubraut í Reykjavík, inn á gatnamótin við Grensásveg og á tvær bifreiðar, sem var ekið Grensásveg til norðurs. Vitni sögðu þann sem ók austur Miklubraut hafa ekið gegn rauðu ljósi. Allir þrír ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 11. október kl. 23.50 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á Strandgötu í Hafnarfirði. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.